Ég heiti Guðrún, ég er ófullkomin og mér er DRULL!

 

Ég rakst á grein um belgíska stærðfræðinginn Adolphe Quetelet um daginn. Quetelet þessi var fyrstur til að nota tölfræði í félagsvísindum. Hann á heiðurinn af því að finna upp meðalmanneskjuna og leit á meðallíkamann sem hina fullkomnu fegurð. Rannsóknir hans mörkuðu tímamót þar sem meðaltalið varð eðlilegt og frávik frá meðaltalinu urðu óeðlileg. Því lengra sem manneskjan var frá meðaltalinu þeim mun ófullkomnari var hún. Niðurstöður rannsókna Quetelet urðu til þess að við fórum að hafa áhyggjur ef börnin okkar þroskuðust ekki í samræmi við það sem var búið að ákveða að væri "eðlilegt" og að við fórum flest að finna fyrir kvíða þegar heilsan, vigtin, félagslífið, starfsframinn o.fl. viku of langt frá meðaltalinu.

Þarna gerðist það að stærðfræði varð undirstaða félagsvísindanna og staðhæfði að normal skipti meira máli en undantekningarnar. Vísindin skiptu meira máli en einstaklingurinn og fjölbreytileikinn varð að galla og hvarf ofan í vísindalega flokkaða kassa. Samt er það fjölbreytileikinn sem knýr áfram menningarlega, efnahagslega og félagslega orku og nýsköpun. Ef við værum öll normal þá væri lítið að gerast í heiminum.

 

Hin fullkomna manneskja er bara tölfræðilegur skáldskapur 

 

Þrátt fyrir að við vitum vel að hin fullkomna manneskja sé ekki til þá erum við samt alltaf að bera okkur saman við staðalímyndina sem er í raun bara tölfræðilegur skáldskapur og við erum öll undantekning frá norminu.

 

Má ÉG vera til?

Þegar ég var að ala upp börnin mín, segja þeim til eða gagnrýna þau, þá svöruðu þau mér oft með því að segja "æji plís mamma má ég vera til?" Mér þótti þetta svar þreytandi í þá daga og eingöngu ætlað til þess að eyða umræðuefninu, en í dag finnst mér þetta svo mikil viska. Þau voru bara að biðja um að fá að vera þau sjálf, gera hlutina á sinn hátt og berjast á móti því að verða sett í kassa.

Auðvitað mátt ÞÚ vera ÞÚ, ÉG vera ÉG og ÞIÐ vera ÞIÐ. Hvernig í ósköpunum eigum við vera eitthvað annað? Það er enginn meira þú en þú og enginn meira ég en ég.

 

But I like to say that normal is the cruellest insult of them all. -Artie í myndinni Cruella

 

Það er hreinlega móðgun að segja að einhver sé normal og ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að ef við viðurkennum að normal sé ekki til þá fyrst fari heimurinn að batna, en við þurfum fyrst að gangast við því að við sjálf séum ófullkomin og hætta að rembast við að reyna að vera eitthvað annað. Þegar ófullkomleika óþolið gagnvart okkur sjálfum hverfur þá öðlumst við líka skilning á því að allir aðrir séu ófullkomnir líka og gefum fjölbreytileikanum það pláss sem hann á skilið, þ.e. ALLT PLÁSSIÐ.

 

Ég heiti Guðrún, ég er ófullkomin og er stolt af því.


Hvar er fjarstýringin mín?

 
Öll mótumst við af umhverfinu og fólkinu í kringum okkur, vitandi eða óafvitandi. Eitt af því sem við óttumst mest í lífinu er álit annarra á okkur. Við erum stöðugt að fylgjast með fólki í kringum okkur og reynum af öllum mætti að gera öllum til hæfis. Við viljum virðingu og reynum að skreyta okkur í þeim tilgangi að líta vel út í augum annarra. Á sama hátt höfum við skoðanir á öðrum þykjumst vita hvað þeim er fyrir bestu, jafnvel þó það sé ekkert tengt okkur og við þekkjum persónurnar ekki neitt. Samt vitum við betur og látum það jafnvel eyðileggja daginn fyrir okkur ef fólk hagar sér ekki eins og við viljum.
 
Það má stundum líkja þessum áhrifum sem umhverfið og fólk hefur á okkur við að við gefum hverju og hverjum sem er aðgang að fjarstýringunni okkar og leyfum þeim að skipta um tilfinningarás og hækka og lækka í líðan okkar að vild.
 
Tökum dæmi:
 
Einn morguninn fór ég eldsnemma í göngutúr um nágrennið. Ég var ein á ferli og óvenju morgunhress. Ég hélt sjálf á fjarstýringunni minni og hækkaði í góðaskapinu og raulaði lagstúf, sveiflaði höndunum og gekk í takt við lagið. Ég var algjörlega í mínum eigin heimi og spáði ekkert í það hvernig ég liti út í augum annarra, enda var enginn á ferli nema ég, fuglarnir og nokkrir íkornar. En Eva var ekki lengi í Paradís. Við enda götunnar, lengst í burtu sá ég skokkara koma hlaupandi á móti mér og um leið rann fjarstýringin úr höndunum á mér og þeyttist alla leið í hendurnar á honum. Hvort sem honum líkaði betur eða verr þá fór hann án þess að vita af því að rugla í tökkunum. Hann lækkaði í góða skapinu, stoppaði flautið, lagaði göngulagði og stöðvaði handasveiflurnar. Bærinn var greinilega að vakna og ég var búin að missa tökin á fjarstýringunni og farin að haga mér eins og virðulegri miðaldra konu sæmir.
 
Þetta er bara eitt lítið og alls ekki alvarlegt dæmi um hvernig maður getur tapað fjarstýringunni sinni. Við óttumst að gera mistök, vera dæmd og bara tilhugsunin um að gera eitthvað sem við höldum að samfélagið samþykki ekki fær eitthvað ósýnilegt sem er ekki einu sinni til eða gerðist fyrir langa löngu, til að taka yfir takkana og skrúfa tilfinningar eins og kvíða, óöryggi, reiði, sorg og margar fleiri, í botn.
 
En veistu hvað? Þetta er þín fjarstýring og þú ræður hverjum þú gefur aðgang að henni. Það getur enginn stýrt þér eða sært þig nema þú gefir þeim leyfi til þess. Það tekur enginn þína fjarstýringu, þú gefur hana.
 
"Fólk hefur tilhneigingu til að láta aðra leiða sig fremur en að leiða sig sjálft og það er rótin að öllum hégóma og sjálfselsku, græðgi, ótta, hatri og hræsni mannanna, sem sagt öllu því sem veldur þjáningum og volæði í heiminum." - Þórbergur Þórðarson
 
Ef við erum búin að gefa frá okkur margar fjarstýringar og allskonar er endalaust að skipta um stöðvar hjá okkur þá getur tekið smá tíma fyrir okkur að ná þeim öllum aftur til baka, þ.e. ef við viljum ná þeim til baka, og til þess þarf hugrekki.
 
“The greatest fear in the world is of the opinions of others. And the moment you are unafraid of the crowd you are no longer a sheep, you become a lion. A great roar arises in your heart, the roar of freedom.” - Osho
 
Við þurfum hugrekki ljónsins til þess að mæta óttanum og þora að standa með sjálfum okkur, en við þurfum líka samúð og sátt við okkur sjálf, sem er einnig grunnurinn af samúð og sátt við aðra.
Þegar ég fór að vinna í að ná utan um mínar fjarstýringar þá fór ég af stað með þann mikla misskilning um að ég þyrfti bara að bæta mig, verða betri og umburðarlyndari manneskja gagnvart öðrum. Mér fannst ég þurfa að geta sett mig í spor og skilja allt og alla og bara vera góð. Smátt og smátt rann upp fyrir mér ljós og ég áttaði mig á því að það var alls ekki málið, heldur þurfti ég að byrja á því að skilja sjálfa mig og verða betri og umburðarlyndari manneskja gagnvart sjálfri mér. Ég var alveg meðvituð um það að allir aðrir væru allskonar með sína kosti og galla, en alls ekki sátt við að ég væri allskonar með mína kosti og galla. Þegar ég áttaði mig á þessu þá fóru hlutirnir fyrst að gerast. 
 
Kappkostaðu að skilja sjálfan þig og lífið. Sjálfur leið þú sjálfan þig. Fyrir þetta öðlastu lausnina." - Þórbergur Þórðarson
 

Skiptir mín skoðun máli?

Allir hafa rétt á sínum skoðunum og þar með talið ég, ekki satt? En skipta mínar skoðanir þig máli? Mögulega, ef þú hefur áhuga og langar að heyra þær, þá geta þær skipt þig máli. En þegar það kemur að því hvernig þú lifir þínu lífi, þínum ákvörðunum eða vali, þá skipta mínar skoðanir í raun engu máli. Það sama á við ef við þekkjumst lítið eða bara ef þig langar ekki að heyra mínar skoðanir á t.d. einhverju sem tengist þér, þá skipta þær heldur ekki máli.

 
Okkur finnst skoðanir okkar vera eitt af því mikilvægasta í heiminum og finnst við hreinlega skyldug til að deila þeim, en samt skipta þær ekki máli, en á meðan þær skipta ekki máli, þá getur skipt máli að deila þeim. Nú ertu farin að tala í hringi kona!
 

Þetta er ekki einfalt. Stundum getur það haft góðar afleiðingar að deila, en oftast hefur það engar eða litlar afleiðingar. Við höfum öll okkar skoðanir og við viljum deila þeim. Fólk hlustar, segir sína skoðun og samtalið heldur áfram. Hins vegar, í mörgum tilfellum getur okkar álit haft alvarlegar afleiðingar, þegar við deilum skoðunum okkar á hegðun, skoðunum, lífsstíl, eða ákvörðunum annarra og geta valdið óþarfa sársauka, af því að við vorum ekki spurð.

Við deilum skoðunum okkar án þess að hafa allar upplýsingar eða skilning og getum verið svo óforskömmuð að troða okkur inní líf annarra, oftast til þess eins að hafa rétt fyrir okkur, en með því erum við samt í raun að hafa rangt fyrir okkur. (sem mér finnst ótrúlega skemmtileg þversögn)
 
Dæmisagan um blindu mennina sex og fílinn:
 
Sex blindir menn hittu fíl. Hver maður rétti út hönd, snerti mismunandi hluta fílsins og lýsti þvi sem hann snerti.
 
Fyrsti maðurinn snerti búkinn á fílnum og sagði: "Þetta er veggur!"
Annar maðurinn snerti ranann og sagði: "þetta er snákur!"
Þriðji maðurinn snerti skögultönn og sagði: "Þetta er spjót!"
Fjórði maðurinn snerti fót og sagði: "Þetta er tré!"
Fimmti maðurinn snerti eyra og sagði:" Þetta er blævængur!"
Sjötti maðurinn snerti halann og sagð:"Þetta er reipi!"
 
Blindu mennirnir sex stóðu hver um sig fastir á sinni skoðun og fóru að rífast um það hver þeirra hefði rétt fyrir sér.
 
Og hver er boðskapur sögunnar? Ég fann íslenska þýðingu á ljóði sem skáldið John Godfrey Saxe (1816-1887) samdi byggt á sögunni um blindu mennina sex og fílinn. Síðasta erindið í ljóðinu lýsir boðskapnum vel.
 
En svona er það oft í fræðafans,
að flutt er mörg ræðan með eligans.
Og bullið eitt rennur frá manni til manns
og merking öll burt flýr héðan.
Um fílinn þeir ræður flytja með glans
þó fæstir hafi þeir séð´ann.
 
Oft þekkjum við bara brota brot af heildinni, en höfum samt sterkar skoðanir á málefninu og erum viss um að við höfum rétt fyrir okkur. Þarf ég þá alltaf að þekkja alla anga málsins áður en ég get myndað mína skoðun? Það er sjaldnast mögulegt, þar sem ég get ómögulega vitað allt.
 
Þegar við reynum að vita allt þá áttum við okkur á því að við vitum ekki neitt.
 
Einhver vitur sagði: Við öðlumst sanna visku þegar við áttum okkur á því hversu lítið við vitum um lífið, okkur sjálf, aðrar manneskur og heiminn í kringum okkur.
 
Ef við gefum fólki pláss til að fá að vera eins og þau eru verður lífið svo miklu aðveldara fyrir alla. Þetta er mín skoðun og skiptir akkúrat engu máli. Ég veit ekkert.
 
 

Um bloggið

Gúa

Höfundur

Gúa
Gúa

Ég á mér draum um meðvirkni-lausan heim

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband