Hvar er fjarstýringin mín?

 
Öll mótumst við af umhverfinu og fólkinu í kringum okkur, vitandi eða óafvitandi. Eitt af því sem við óttumst mest í lífinu er álit annarra á okkur. Við erum stöðugt að fylgjast með fólki í kringum okkur og reynum af öllum mætti að gera öllum til hæfis. Við viljum virðingu og reynum að skreyta okkur í þeim tilgangi að líta vel út í augum annarra. Á sama hátt höfum við skoðanir á öðrum þykjumst vita hvað þeim er fyrir bestu, jafnvel þó það sé ekkert tengt okkur og við þekkjum persónurnar ekki neitt. Samt vitum við betur og látum það jafnvel eyðileggja daginn fyrir okkur ef fólk hagar sér ekki eins og við viljum.
 
Það má stundum líkja þessum áhrifum sem umhverfið og fólk hefur á okkur við að við gefum hverju og hverjum sem er aðgang að fjarstýringunni okkar og leyfum þeim að skipta um tilfinningarás og hækka og lækka í líðan okkar að vild.
 
Tökum dæmi:
 
Einn morguninn fór ég eldsnemma í göngutúr um nágrennið. Ég var ein á ferli og óvenju morgunhress. Ég hélt sjálf á fjarstýringunni minni og hækkaði í góðaskapinu og raulaði lagstúf, sveiflaði höndunum og gekk í takt við lagið. Ég var algjörlega í mínum eigin heimi og spáði ekkert í það hvernig ég liti út í augum annarra, enda var enginn á ferli nema ég, fuglarnir og nokkrir íkornar. En Eva var ekki lengi í Paradís. Við enda götunnar, lengst í burtu sá ég skokkara koma hlaupandi á móti mér og um leið rann fjarstýringin úr höndunum á mér og þeyttist alla leið í hendurnar á honum. Hvort sem honum líkaði betur eða verr þá fór hann án þess að vita af því að rugla í tökkunum. Hann lækkaði í góða skapinu, stoppaði flautið, lagaði göngulagði og stöðvaði handasveiflurnar. Bærinn var greinilega að vakna og ég var búin að missa tökin á fjarstýringunni og farin að haga mér eins og virðulegri miðaldra konu sæmir.
 
Þetta er bara eitt lítið og alls ekki alvarlegt dæmi um hvernig maður getur tapað fjarstýringunni sinni. Við óttumst að gera mistök, vera dæmd og bara tilhugsunin um að gera eitthvað sem við höldum að samfélagið samþykki ekki fær eitthvað ósýnilegt sem er ekki einu sinni til eða gerðist fyrir langa löngu, til að taka yfir takkana og skrúfa tilfinningar eins og kvíða, óöryggi, reiði, sorg og margar fleiri, í botn.
 
En veistu hvað? Þetta er þín fjarstýring og þú ræður hverjum þú gefur aðgang að henni. Það getur enginn stýrt þér eða sært þig nema þú gefir þeim leyfi til þess. Það tekur enginn þína fjarstýringu, þú gefur hana.
 
"Fólk hefur tilhneigingu til að láta aðra leiða sig fremur en að leiða sig sjálft og það er rótin að öllum hégóma og sjálfselsku, græðgi, ótta, hatri og hræsni mannanna, sem sagt öllu því sem veldur þjáningum og volæði í heiminum." - Þórbergur Þórðarson
 
Ef við erum búin að gefa frá okkur margar fjarstýringar og allskonar er endalaust að skipta um stöðvar hjá okkur þá getur tekið smá tíma fyrir okkur að ná þeim öllum aftur til baka, þ.e. ef við viljum ná þeim til baka, og til þess þarf hugrekki.
 
“The greatest fear in the world is of the opinions of others. And the moment you are unafraid of the crowd you are no longer a sheep, you become a lion. A great roar arises in your heart, the roar of freedom.” - Osho
 
Við þurfum hugrekki ljónsins til þess að mæta óttanum og þora að standa með sjálfum okkur, en við þurfum líka samúð og sátt við okkur sjálf, sem er einnig grunnurinn af samúð og sátt við aðra.
Þegar ég fór að vinna í að ná utan um mínar fjarstýringar þá fór ég af stað með þann mikla misskilning um að ég þyrfti bara að bæta mig, verða betri og umburðarlyndari manneskja gagnvart öðrum. Mér fannst ég þurfa að geta sett mig í spor og skilja allt og alla og bara vera góð. Smátt og smátt rann upp fyrir mér ljós og ég áttaði mig á því að það var alls ekki málið, heldur þurfti ég að byrja á því að skilja sjálfa mig og verða betri og umburðarlyndari manneskja gagnvart sjálfri mér. Ég var alveg meðvituð um það að allir aðrir væru allskonar með sína kosti og galla, en alls ekki sátt við að ég væri allskonar með mína kosti og galla. Þegar ég áttaði mig á þessu þá fóru hlutirnir fyrst að gerast. 
 
Kappkostaðu að skilja sjálfan þig og lífið. Sjálfur leið þú sjálfan þig. Fyrir þetta öðlastu lausnina." - Þórbergur Þórðarson
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gúa

Höfundur

Gúa
Gúa

Ég á mér draum um meðvirkni-lausan heim

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband